Innlent

Hluti auglýsingatekna Rúv renni til einka­rekinna fjöl­miðla

Árni Sæberg skrifar
Logi Einarsson er menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra.
Logi Einarsson er menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. Vísir/Ívar Fannar

Meðal boðaðra aðgerða ríkisstjórnarinnar í þágu fjölmiðla er að hluti auglýsingatekna Ríkissjónvarpsins mun renna til einkarekinna fjölmiðla. Þá verður sett þak á auglýsingatekjur Rúv og allar tekjur umfram það renna til einkarekinna fjölmiðla. Þá verður stuðningur við fjölmiðla sem sinna skilgreindu almannaþjónustuhlutverki aukinn.

Þetta var meðal þess sem kom fram á blaðamannafundi Loga Einarssonar, menningar-, nýsköpunar- og háskólamálaráðherra, sem hófst klukkan 14. Aðgerðaáætlunina má lesa í heild sinni hér.

„Þessi aðgerðaáætlun er ekki samansafn einstakra aðgerða, enda mun engin ein aðgerð tryggja viðspyrnu íslenskra fjölmiðla í alþjóðlegri samkeppni. Þessi aðgerðaáætlun myndar eina heild þar sem margar ólíkar aðgerðir vinna saman í átt að sterkara fjölmiðlaumhverfi á Íslandi. Þegar litið er á einstaka aðgerðir er því mikilvægt að hafa í huga samspil þeirra við aðrar aðgerðir í áætluninni,“ sagði Logi.

Logi sagði að hann teldi hlutverk Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði mjög mikilvægt. Aftur á móti vildu stjórnvöld breyta hlutverki þess á þann veg að staða þess miðaði frekar að stuðningi við einkarekna fjölmiðla en samkeppni við þá.

Aðgerðaáætlunin var kynnt á blaðamannafundi í dag.Vísir/Berghildur

Þá sagði hann að strax á næsta ári muni stuðningur við þá fjölmiðla sem sinna almannaþjónustuhlutverki nema 100 milljónum króna. Vonast væri til þess að upphæðin yrði þrefölduð strax árið 2027. Ríkari kröfur yrðu gerðar til þessara fjölmiðla, meðal annars með tilliti til fjölda blaðamanna á ritstjórn, fréttaþjónustu við landið allt og kosningaumfjöllunar.

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×