Merki eru um að hraunið frá eldstöðinni í Holuhrauni flæði nú einkum í lokuðum rásum sem opnast nærri jöðrum þess, en að undanförnu hefur það aðallega breitt úr sér til norðurs.
Flatarmál hraunsins er nú um 78,6 ferkílómetrar.
Þetta kom fram á fundi vísindamannaráðs í gærmorgun þar sem vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans, ásamt fulltrúum frá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Umhverfisstofnun og Sóttvarnalækni funduðu. Eldgosið heldur annars áfram með líkum hætti og verið hefur síðustu vikur.
Jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu er enn öflug. Stærsti skjálftinn frá hádegi á miðvikudag mældist 4,6, en alls mældust rúmlega 130 skjálftar á tímabilinu. Lítil jarðskjálftavirkni mældist við bergganginn og gosstöðvarnar sjálfar.
Enn hefur ekki tekist að koma á sambandi við GPS-stöðina í öskju Bárðarbungu, og vegna veðurs verður það ekki hægt næstu daga.
Þá er Umhverfisstofnun að skipuleggja dreifingu handmæla úti um land til að bæta upplýsingaöflun um dreifingu gasmengunarinnar.
Hraunið rennur aðallega í lokuðum rásum
Svavar Hávarðsson skrifar
