Körfubolti

Haukur Helgi og félagar aftur á sigurbraut í Svíþjóð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haukur Helgi Pálsson.
Haukur Helgi Pálsson. vísir/stefán
Haukur Helgi Pálsson og félagar hans í LF Basket komust aftur á sigurbraut í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld þegar þeir lögðu ecoÖrebro á útivelli, 92-63.

Haukur Helgi átti fínan leik og skoraði tíu stig auk þess sem hann tók fimm fráköst, en LF Basket er í sjötta sæti deildarinnar með 24 stig.

Sundsvall Dragons er einnig með 24 stig, en Drekarnir töpuðu fyrir Södertälje Kings á útivelli í kvöld með tólf stiga mun, 84-72.

Íslendingarnir höfðu flestir hægt um sig, en Hlynur Bæringsson sneri aftur í liðið og skoraði 15 stig og tók átta fráköst.

Jakob Örn Sigurðarson skoraði átta stig, gaf 4 stoðsendingar og tók fjögur fráköst, Ægir Þór Steinarsson skoraði þrjú stig og Ragnar Nathanaelsson tvö stig á þeim sjö mínútum sem hann spilaði.

Solna Vikings er svo í sjöunda sæti deildarinnar með 16 stig eftir nítján umferðir, en Víkingarnir unnu flottan útisigur gegn KFUM Nässjö í kvöld, 83-73.

Sigurður Gunnar Þorsteinsson skoraði 15 stig og tók 10 fráköst fyrir Solna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×