Körfubolti

Jakob stigahæstur á vellinum í sigri Sundsvall

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson.
Jakob Örn Sigurðarson. Vísir/Valli
Jakob Örn Sigurðarson skoraði 19 stig þegar Sundsvall Dragons vann tveggja stiga útisigur á Uppsala Basket, 79-77, í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Alls skoruðu íslensku leikmennirnir 37 stig í kvöld auk þess að taka 20 fráköst og gefa 9 stoðsendingar.

Drekarnir voru 25-16 yfir eftir fyrsta leikhlutann en bara tveimur stigum yfir í hálfleik, 42-40. Seinni hálfleikurinn var spennandi og á lokamínútunum voru það mikilvægar þriggja stiga körfur frá Jakobi og William Gutenius sem áttu mestan þátt í að tryggja sigurinn.

Auk þess að skora mest allra á vellinum, þá var Jakob með 5 fráköst og 3 stoðsendingar en hann hitti meðal annars úr 4 af 9 þriggja stiga skotum sínum í leiknum.

Hlynur Bæringsson var með 14 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar, Ragnar Nathanaelsson var með 4 stig og Ægir Þór Steinarsson tók 4 fráköst og gaf 2 stoðsendingar en náði þó ekki að skora.  

Sundsvall Dragons er nú í þriðja til sjötta sæti í deildinni en fjögur lið eru jöfn með 26 stig og aðeins tveimur stigum á eftir efstu tveimur liðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×