Íslenski boltinn

Viking hafnar 100 milljóna króna tilboði Lokeren í Sverri Inga

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sverrir Ingi Ingason var fyrirliði U21 árs landsliðsins í síðustu undankeppni.
Sverrir Ingi Ingason var fyrirliði U21 árs landsliðsins í síðustu undankeppni. vísir/anton
Norska félagið Viking Stavanger hafnaði 100 milljóna króna tilboði belgíska úrvalsdeildarliðsins Lokeren í miðvörðinn Sverri Inga Ingason, samkvæmt heimildum Vísis.

Fótbolti.net greindi fyrst frá því að tilboð hefði borist frá Lokeren í leikmanninn sem spilaði sitt fyrsta tímabil í atvinnumennsku í norsku úrvalsdeildinni á síðustu ári.

Stavanger Aftenblad greinir frá því að Viking hafi hafnað tveimur tilboðum frá danska úrvalsdeildarliðinu Nordsjælland, en það seinna var tilboð upp á fimm milljónir norskra króna eða 86 milljónir íslenskra króna.

Þriðja tilboðið hefur borist Viking og það frá Lokeren, en samkvæmt heimildum Vísis bauð belgíska félagið um 650.000 evrur í Sverri. Það gera rétt tæpar 100 milljónir króna.

Ólafur Kristjánsson, þjálfari Norsjælland, er því kominn í harða samkeppni um sinn fyrrverandi lærisvein, en ljóst er að verðmiðinn á Sverri hefur hækkað verulega á þessu eina ári.

Aftenbladet segir Viking hafa borgað Breiðabliki um 17 milljónir íslenskra króna fyrir Sverri, en Lokeren hefur nú boðið ríflega fimmfalda þá upphæð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×