Körfubolti

Martin með 21 stig en tók samt bara sex skot

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. Vísir/Daníel
Martin Hermannsson var stigahæstur í öðrum leiknum í röð þegar LIU Brooklyn vann 80-76 sigur á Fairleigh Dickinson í bandaríska háskólaboltanum en íslenski landsliðsmaðurinn er heldur betur búinn að finna taktinn á stóra sviðinu í New York.

Martin setti nýtt persónulegt met með því að skora 21 stig í leiknum en hann var einnig með 5 stolna bolta, 4 stoðsendingar og 4 fráköst.

Athyglisverðasta tölfræði Martins í leiknum var þó kannski sú að hann skoraði 21 stig þrátt fyrir að taka bara sex skot allan leikinn. Það þýðir 3,5 stig á hvert skot sem á ekki að vera tölfræðilega hægt eða hvað?

Martin fékk ekkert fleiri stig fyrir körfur sína en hann hitti úr 12 af 15 vítum sem hjálpaði honum að koma svona mörgum stigum upp á töflu þrátt fyrir að reyna bara sex skot.

Martin hitti úr 4 af þessum 6 skotum þar af setti hann niður eina þriggja siga skotið sitt á þeim 33 mínútum sem hann spilaði.

Elvar Már Friðriksson var með 4 stig og 1 stoðsendingu á 16 mínútum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×