Fótbolti

Matthías: Alfreð er ekki nógu duglegur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Matthías hefur skorað tvö mörk í 13 landsleikjum fyrir Íslands hönd.
Matthías hefur skorað tvö mörk í 13 landsleikjum fyrir Íslands hönd. mynd/heimasíða start
Matthías Vilhjálmsson, leikmaður Start í Noregi, stóð fyrir sínu í tveimur vináttulandsleikjum Íslands og Kanada fyrir skömmu.

Matthías, sem er 27 ára, skoraði annað mark Íslands í 2-1 sigri í fyrri leiknum og fiskaði vítaspyrnuna sem Hólmbert Aron Friðjónsson jafnaði úr í seinni leiknum sem lyktaði með 1-1 jafntefli.

„Þetta gekk mjög vel,“ sagði Matthías í samtali við Aftenbladet í Noregi og bætti við að hann hefði verið nálægt því að skora sigurmarkið í seinni leiknum.

„Það var bjargað á línu frá mér,“ sagði Matthías sem lék með FH áður en hann hélt til Noregs í atvinnumennsku. Hann vonast til að hafa heillað landsliðsþjálfarana með frammistöðu sinni í leikjunum gegn Kanada.

„Ég vona að Lars Lagerbäck hafi nóg að hugsa um. Ísland á marga góða framherja,“ sagði Matthías sem segir leikstíll hans henti íslenska landsliðinu vel þar sem landsliðsþjálfararnir vilji spila með tvo duglega framherja.

Matthías segir það ástæðuna fyrir takmörkuðum spilatíma Alfreðs Finnbogasonar með landsliðinu.

„Hann skoraði grimmt í Hollandi síðustu tvö tímabil en hann spilar ekki með landsliðinu því hann er ekki nógu duglegur,“ sagði Matthías en Alfreð kom t.a.m. ekkert við sögu þegar Ísland tapaði 2-1 fyrir Tékklandi í undankeppni EM 2016 í nóvember á síðasta ári.

Alfreð skoraði mark Íslands í 3-1 tapi gegn Belgíu í nóvember.vísir/afp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×