Fótbolti

Tyrknesk lið hafa áhuga á Jóni Daða

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Daði Böðvarsson hefur slegið í gegn í undankeppni EM 2016.
Jón Daði Böðvarsson hefur slegið í gegn í undankeppni EM 2016.
Samkvæmt heimildum Vísis hafa nokkur tyrknesk félög áhuga á að kaupa Jón Daða Böðvarðsson, framherja Viking Stavanger, áður en félagaskiptaglugganum verður lokað.

Jón Daði spilaði sinn fyrsta mótsleik fyrir A-landsliðið gegn Tyrkjum á Laugardalsvellinum í október á síðasta ári og sló í gegn, en hann skoraði fyrsta mark Íslands af þremur.

Sú frammistaða kveikti áhuga þarlendra félagsliða sem hafa nú borið víurnar í hann, en aðeins eru níu dagar þar til félagaskipta glugganum verður lokað.

Heimildir Vísis herma þó að landsliðsframherjinn ætli ekki að taka skrefið til Tyrklands, en hann mun að öllum líkindum hefja nýtt tímabil með Viking í norsku úrvalsdeildinni.

Tyrkir hafa ekki bara borið víurnar í Jón Daða heldur kom fram í tyrkneskum miðlum í gær að meistarlið Fenerbache væri sagt íhuga að gera Ajax tilboð í Kolbein Sigþórsson.

Kolbeinn og Jón Daði voru báðir í byrjunarliðinu gegn Tyrklandi í október og skoruðu báðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×