Harris English leiðir þegar að Farmers Insurance mótið er hálfnað en hann hefur leikið allar 36 holurnar á Torrey Pines vellinum á tíu höggum undir pari.
Nick Watney, Jhonathan Vegas og Martin Laird deila öðru sætinu á átta undir en Nicholas Thompson, sem leiddi eftir fyrsta hring, er einn í fimmta sæti á sjö höggum undir pari.
Margir sterkir kylfingar áttu erfitt uppdráttar á fyrstu tveimur hringjunum og náðu ekki niðurskurðinum en þar má nefna Phil Mickelson, Luke Donald, Justin Rose og Dustin Johnson sem lék í sínu fyrsta móti á PGA-mótaröðinni eftir langt hlé.
Þá kláraði Tiger Woods ekki fyrsta hring eins og frægt er orðið en hann fann fyrir verkjum í baki og hætti leik.
Hins vegar eru nokkur þekkt nöfn ofarlega á skortöflunni eins og Ian Poulter, Jason Day og Jimmy Walker sem deila allir sjötta sæti á sex höggum undir pari.
Bein útsending frá þriðja hring hefst á Golfstöðinni klukkan 18:00 í kvöld.
Harris English efstur á Farmers Insurance
