Körfubolti

Ingunn Embla dæmd í tveggja leikja bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingunn Embla Kristínardóttir.
Ingunn Embla Kristínardóttir. Vísir/Vilhelm
Kvennalið Keflavíkur verður án leikstjórnanda síns Ingunnar Emblu Kristínardóttur í næstu tveimur leikjum liðsins en hún hefur verið dæmd í tveggja leikja bann.  Þetta kemur fram á heimasíðu KKÍ.

Ingunn Embla var kærð fyrir atvik sem gerðist í undanúrslitaleik Keflavíkur og Snæfells á laugardaginn var en hún sparkaði þá í Gunnhildi Gunnarsdóttur hjá Snæfelli.

Dómarar leiksins misstu af atvikinu en sparkið hennar sást mjög vel í sjónvarpsupptöku frá leiknum. Aga- og úrskurðarnefnd tók fyrir mál hennar og dæmdi hana í tveggja leikja bann.

Ingunn Embla missir af útileikjum við Val og Grindavík en má fyrst spila í næsta heimaleik sem verður á móti Hamar 14. febrúar næstkomandi. Viku síðar mætir Keflavíkliðið Grindavík í bikarúrslitaleiknum í Laugardalshöllinni.

Ingunn Embla Kristínardóttir er með 9,7 stig, 4,8 fráköst og 2,4 stoðsendingar að meðaltali með Keflavík í Dominos-deildinni. Ingunn Embla var með 14 stig á 25 mínútum í bikarsigrinum á Snæfelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×