Körfubolti

Leifur dæmir sinn fyrsta bikarúrslitaleik í ellefu ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leifur Garðarsson og Sigmundur Már Herbertsson. Sigmundur hefur dæmt átta úrslitaleiki síðan Leifur dæmdi síðast í bikarúrslitunum árið 2004.
Leifur Garðarsson og Sigmundur Már Herbertsson. Sigmundur hefur dæmt átta úrslitaleiki síðan Leifur dæmdi síðast í bikarúrslitunum árið 2004. Vísir/Ernir
Úrslitaleikir Poweradebikars karla og kvenna í körfubolta fara fram í Laugardalshöllinni um helgina og dómaranefnd KKÍ hefur raðað dómurum á leikina.

Sigmundur Már Herbertsson og Björgvin Rúnarsson dæma kvennaleikinn á milli Keflavíkur og Grindavíkur en hann hefst klukkan 13.30 á laugardaginn.

Leifur Garðarsson, Kristinn Óskarsson og Jón Guðmundsson dæma karlaleikinn sem er á milli KR og Stjörnunnar og hefst klukkan 16.00 á laugardaginn.

Leifur Garðarsson er að fara dæma sinn tíunda bikarúrslitaleik á ferlinum en það eru samt ellefu ár síðan að hann flautaði síðast í bikarúrslitaleik. Leifur dæmdi bikarúrslitaleik árið 2004.

Leifur lagði flautuna á hilluna í tíu ár en byrjaði aftur að dæma á síðasta tímabili. Þar liggur skýringin á því að hann hefur ekki fengið bikarúrslitaleik í meira í árartug.

Kristinn Óskarsson er að fara dæma sinn fjórtánda bikarúrslitaleik á ferlinum og þetta verður þrettándi bikarúrslitaleikur Sigmundar Más Herbertssonar. Björgvin Rúnarsson dæmir sinn níunda bikarúrslitaleik og Jón Guðmundsson sinn fjórða.

Kristinn dæmir jafnframt sinn tíunda bikarúrslitaleik karla en hann hefur dæmt sjö af síðustu fjórtán úrslitaleikjum karlanna.  Þetta verður aftur á móti fyrsti bikarúrslitaleikur hans í karlaflokki frá 2011.

Jón hefur ekki dæmt bikarúrslitaleik með Kristni eða Leif en Leifur og Kristinn dæmdu saman bikarúrslitaleik karla árin 1998 og 2002.

Pétur Hrafn Sigurðsson er eftirlitsmaður í kvennaleiknum en Rúnar Birgir Gíslason er eftirlitsmaður í karlaleiknum.

Fjórtán bikarúrslitaleikir Kristins Óskarssonar

Bikarúrslitaleikir karla:  10 (1992, 1995, 1998, 2002, 2005, 2007, 2008, 2010, 2011 og 2015)

Bikarúrslitaleikir kvenna: 4 (1991, 2006, 2012 og 2014)

Þrettán bikarúrslitaleikir Sigmundar Más Herbertssonar

Bikarúrslitaleikir karla:  8 (2000, 2003, 2006, 2007, 2009, 2011, 2012 og 2014)

Bikarúrslitaleikir kvenna:  5 (1997, 1998, 2010, 2013 og 2015)

Tíu bikarúrslitaleikir Leifs Garðarssonar

Bikarúrslitaleikir karla:  7 (1991, 1994, 1998, 1999, 2002, 2004 og 2015)

Bikarúrslitaleikir kvenna:  3 (1993, 2001 og 2003)

Níu bikarúrslitaleikir Björgvins Rúnarssonar

Bikarúrslitaleikir karla:  3 (2005, 2011 og 2013)

Bikarúrslitaleikir kvenna:  6 (1997, 2003, 2006, 2007, 2009 og 2015)

Fjórir bikarúrslitaleikir Jóns Guðmundssonar

Bikarúrslitaleikir karla:  3 (2009, 2013 og 2015)

Bikarúrslitaleikir kvenna:  1 (2008)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×