Erlent

Vill friðargæsluliða SÞ í Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Petro Poroshenko, forseti Úkraínu.
Petro Poroshenko, forseti Úkraínu. Vísir/EPA
Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, segir öruggustu leiðina til að tryggja að vopnahlé haldi í Austur-Úkraínu, sé að fá friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna til landsins. Um 2.500 úkraínskir hermenn hörfuðu í dag frá  bænum Debaltseve, eftir hörð átök við aðskilnaðarsinna, þrátt fyrir að vopnahlé hafi átt að taka gildi á sunnudaginn.

Þjóðaröryggisráð Úkraínu samþykkti að bjóða friðargæsluliðum til landsins, en AFP fréttaveitan segir vopnahléið hanga á bláþræði.

Poroshenko sagði í dag að sex hermenn hefðu látið lífið í því sem hann kallaði „skipulögðu undanhaldi“ frá Debaltseve. Hermenn sem blaðamenn AFP ræddu við sögðu þó að þeir hefðu aldrei fengið skipun um að hörfa og hefðu flúið þegar þeir sáu að skriðdrekar þeirra voru á leiðinni úr bænum.

Debaltseve er hernaðarlega mikilvægur.Vísir/GraphicNews
Aðskilnaðarsinnar segja bæinn vera að fullu undir stjórn þeirra og að þeir hafi tekið 300 hermenn höndum. Úkraínskir embættismenn staðfesta að hermenn séu í haldi aðskilnaðarsinna en vilja ekki segja hve margir.

Leiðtogar Þýskalands og Frakklands hafa lýst yfir áhyggjum vegna ástandsins en segja þó að enn sé von um að vopnahléið haldi.

Yfirvöld í Kænugarði sem og ríki NATÓ hafa sakað Rússa um að senda hermenn, vopn, skriðdreka og stórskotalið til aðskilnaðarsinna. Með því vilji Rússar ýta undir óöldina í landinu og koma í veg fyrir að Úkraína færist nær Evrópusambandinu og NATÓ.

Rússar þvertaka þó fyrir það og segja þessar ásakanir vera rangar.

Um bæinn Debaltseve liggja járnbrautateinar sem tengja borgirnar Donetsk og Lugansk, sem báðar eru í höndum aðskilnaðarsinna og því var bærinn þeim mjög mikilvægur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×