Hinrik Hafsteinsson var einn þeirra sem ók fram á djúpan og mikinn poll nærri íþróttahúsinu við Ásvelli í Hafnarfirðinum um hálf sexleytið í gær. Reyndar velti Hinrik fyrir sér í athugasemd með myndbandinu sem hann tók af aðstæðum hvort svona poll ætti ekki hreinlega að flokka sem „sæmilegt stöðuvatn.“
Eins og sjá má á myndbandinu nær vatnið hátt upp á hliðar bifreiðar Hinriks og þá má sjá jeppa keyra í gegnum vatnselginn.
Grínast félagar hans með hvort hann hafi ekki hreinlega verið kominn í Ásvallalaug sem er á næstu grösum. Annar spyr hvað hann hafi verið að gera í Læknum?
„Læknum? Ég var heppinn að reka ekki út á Faxaflóa,“ svarar Hinrik.
Þá voru hviður svo miklar á tímabili í gær að byggingakrani féll til jarðar í Garðabænum eins og fjallað var um í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.