Körfubolti

Martin fór á kostum í seinni hálfleik tryggði LIU sigurinn á vítalínunni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Martin Hermannsson var frábær í seinni hálfleik.
Martin Hermannsson var frábær í seinni hálfleik. vísir/andri marinó
Martin Hermannsson, íþróttamaður Reykjavíkur 2014, var hetja LIU Brooklyn í bandarísku háskólakörfunni í nótt.

LIU vann lið Robert Morris-háskólans, 63-62, eftir að vera undir, 40-30, í hálfleik. Martin skoraði síðustu tvö stig LIU af vítalínunni þegar ein mínúta og 19 sekúndur voru eftir af leiknum.

Joel Hernandez, liðsfélagi Martins og Elvars, átti líka stóran þátt í sigrinum undir lokin, en hann tók mikilvægt sóknarfrákast, stal einum bolta og varði síðasta skot heimamanna um leið og flautan gall.

Varnarleikur svartþrastanna úr Brooklyn skilaði sigrinum í seinni hálfleik, en skotnýting heimamanna í Robert Morris fór úr 52,6 prósentum í fyrri hálfleik niður í 25 prósent í seinni hálfleik.

Martin skoraði tólf stig í leiknum, öll í seinni hálfleik, auk þess sem hann tók fimm fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Elvar Már Friðriksson spilaði 26 mínútur í leiknum á móti 34 hjá Martin og skoraði fjögur stig, tók eitt frákast og gaf eina stoðsendingu.

LIU er búið að vinna ellefu leiki og tapa þrettán á tímabilinu í heildina en er með sjö sigra og sex töp innan sinnar deildar.

Kristófer Acox átti góðan leik fyrir Furman-háskólaliðið í nótt, en það dugði ekki til. Kristófer og hans menn voru saltaðir á útivelli gegn VMI, 93-59.

Kristófer var stigahæstur sinna manna með 14 stig auk þess sem hann tók fimm fráköst, en hann hitti úr sex af átta skotum sínum í teignum. Furman er búið að vinna sjö leiki en tapa 17.

Gunnar Ólafsson var ekki í liði St. Francis sem vann öruggan sigur á Wagner-háskólanum, 83-66, á heimavelli. Gunnar og hans menn eru í mjög góðum málum með 17 sigra og níu töp (11-2 innan sinnar deildar).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×