Farþegaþotu malasíska flugfélagsins Malaysian Airlines, MH370, var mögulega flogið viljandi af leið í átt að Suðurskautslandinu. Þessu er haldið fram í nýrri heimildarmynd Nationa Geographic um hvarf farþegaþotunnar.
Þar eru flugslysasérfræðingar sagðir hafa greint gervihnattagögn sem þotan sendi frá sér og komist að því að vélin var á flugi í um fjóra tíma eftir að hún hvarf af ratsjá. Við nánari rannsókn kom í ljós að vélinni á að hafa verið beygt af leið í þrígang eftir að samband rofnaði við hana og er talið að henni hafi verið stefnt í átt að Suðurskautslandinu.
Haft er eftir Malcolm Brenner, sem er sagður einn sá færasti á sviði flugslysarannsókna, að þessar beygjur gefi sterklega til kynna að einhver í flugstjórnarklefanum hafi beygt þotunni viljandi af leið.
Segir Brenner ekkert atvik hafa fengið jafn mikla athygli á fjörutíu ára ferli sínum en rætt er við hann í þessari heimildamynd National Geographic sem verður frumsýnd í næsta mánuði.
Þotan hvarf af ratsjám laugardaginn 8. mars árið 2014 á leið frá Kuala Lumpur til Peking. 239 voru um borð í vélinni þegar sambandið rofnaði við hana.
Talið að MH370 hafi verið stefnt að Suðurskautslandinu

Tengdar fréttir

Sex mánuðir í dag frá hvarfi flugs Malaysian Airlines MH370
Nýjasta vísbendingin er þó rétt um tíu daga gömul og yfirvöld hafa því ekki gefist upp á leitinni.