ÍA bar sigurorð af Íslandsmeisturum Stjörnunnar í fyrsta leik dagsins í Lengjubikarnum í fótbolta. Leikið var í Akraneshöllinni.
Ásgeir Marteinsson skoraði fyrra mark ÍA en hann kom til Skagamanna frá Fram fyrr í vetur.
Arnar Már Guðjónsson bætti svo öðru marki við á 74. mínútu og gulltryggði sigur Akurnesinga. Lokatölur 2-0.
Skagamenn eru með fullt hús stiga í riðli 3 en lærisveinar Gunnlaugs Jónssonar unnu Hauka 4-3 í fyrstu umferðinni síðasta laugardag.
Stjörnumenn eru hins vegar með aðeins eitt stig eftir tvo leiki en Íslandsmeistararnir gerðu 1-1 jafntefli við Val í fyrsta leik sínum í riðlinum.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.
