Bretland og Evrópusambandið sváfu á verðinum gagnvart ástandinu í Úkraínu og mislásu rússnesk stjórnvöld algjörlega. Evrópusambandið hafi of lengi byggt samskipti sín við Rússa á bjartsýni um að það væri að verða lýðræðisríki en slíkt sé fjarri lagi.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í skýrslu lávarðadeildar breska þingsins um átökin í austurhluta Úkraínu sem nú hafa staðið í tæpt ár.
Í skýrslunni segir að Evrópusambandið hafi ekki gert sér grein fyrir mikilli andstöðu Rússa við nánara samstarf sambandsins og Úkraínu. Þá hafi bresk yfirvöld ekki látið nógu mikið til sín taka í lausn Úkraínudeilunnar.
Stuttu áður en skýrslan var birt hafði Donald Tusk, forseti Evrópuráðsins, kallað David Cameron, forsætisráðherra Breta, á sinn fund til að ræða ástandið í Úkraínu.
Enn er hart barist í austurhluta landsins þrátt fyrir vopnahlé sem samið var um í liðinni viku og tók gildi á sunnudag.
