Yrði útskúfaður úr fjölskyldunni
„Það er bannað fyrir múslima,” sagði hann og bætti við að ef hann myndi slíta samskiptum við son eða dóttur ef viðkomandi væri í samkynhneigðu sambandi. Viðkomandi yrði jafnframt útskúfaður úr fjölskyldunni. Tengdasonur hans, Jóhannes Ari, sem hefur einnig tekið upp íslam, mótmælti þessari afstöðu tengdaföður síns.
„Ef dóttir mín yrði samkynhneigð, þá myndi ég ekkert loka á hana,“ segir Jóhannes. „Mér finnst það bara kolrangt, þetta er barnið þitt.” Sonur Nasirs, Muhammad, tók undir og kvaðst ekki myndu loka á barnið sitt þótt það kæmi út úr skápnum.
Víðast hvar í múslimskum löndum er samkynhneigð ekki viðurkennd félagslega. Dauðarefsing liggur við samkynhneigðu kynlífi í nokkrum múslimalöndum en það er löglegt í 22 ríkjum þar sem múslimar eru í meirihluta.

Fida Abu Libdeh var sextán ára þegar hún kom ásamt móður sinni og fjórum systkinum til Íslands og tókst með stálvilja að ljúka hér námi. Hún stofnaði sprotafyrirtækið Geosilica ásamt skólafélaga sínum, en þar starfa nú fimm manns við að framleiða fæðubótarefni úr kísli.
Fida lýsir því í þætti kvöldsins hversu erfitt henni reyndist að fóta sig í nýrri tilveru þar sem hún reyndi af öllum mætti að þóknast bæði félögum sínum í íslenskum unglingaveruleika og múslimsku stórfjölskyldunni. Annars vegar kröfur um djamm og drykkju og hins vegar kröfur um siðprýði og hófsamt líferni.
Hún segist hafa lifað tvöföldu lífi á þessum árum og ekki orðið hamingjusöm fyrr en hún hætti að spá í þetta. Í dag er hún hamingjusamlega gift íslenskum manni.
Fyrri hluti Múslimanna okkar er í opinni dagskrá á Stöð 2, kl. 19:20 í kvöld. Handrit og leikstjórn er í höndum Lóu Pind Aldísardóttur en Kristinn Þeyr sá um kvikmyndatöku.