Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks, tilkynnti í dag að írakski herinn og fjölmargar sveitir sjíamúslíma hafi hafið sókn gegn vígasveitum ISIS í landinu.
Abadi greindi frá þessu þegar hann ræddi við fréttamenn í heimsókn sinni til borgarinnar Samarra, norður af höfuðborginni Bagdad.
Íröksk yfirvöld ráða yfir borginni Samarra, en ISIS-liðar yfir fjölda landsvæða í héraðinu þar sem súnnimúslímar eru í meirihluta.
Ráða hryðjuverkasamtökin meðal annars yfir borginni Tíkrít, heimaborg fyrrum einræðisherrans Saddams Hussein, auk fjölda annarra borga meðfram Tígris-fljóti norður af Samarra.

