Sex háttsettir lögreglustjórar hafa verið reknir eftir árásina á Bardo-safnið í Túsisborg í síðustu viku. Talsmaður Habib Essid, forsætisráðherra Túnis, greindi frá þessu.
Rúmlega tuttugu manns fórust í árásinni og voru flest fórnarlambanna erlendir ferðamenn.
Beji Caid Essebsi Túnisforseti greindi frá því um helgina að brestir í öryggismálum hafi leitt til að hryðjuverkaárásin hafi haft svo skelfilegar afleiðingar líkt og raun bar vitni.
Í frétt SVT kemur fram að þeir öryggisverðir sem hefðu átt að standa vörð við inngang safnsins hafi verið í kaffipásu þegar árásarmennirnir hófu skothríðina fyrir utan safnið.
Hryðjuverkasamtökin ISIS hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni.
