Körfubolti

Kerr setti met | Sigursælasti þjálfarinn á sínu fyrsta ári

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kerr ræðir við Stephen Curry, aðalstjörnu Golden State.
Kerr ræðir við Stephen Curry, aðalstjörnu Golden State. vísir/getty
Það er óhætt að segja að þjálfaraferill Steve Kerr hafi byrjað glæsilega.

Þessi 49 ára gamli fyrrum leikmaður Chicago Bulls og San Antonio Spurs tók við liði Golden State Warriors fyrir tímabilið og undir hans stjórn hefur liðið farið á kostum.

Golden State vann öruggan sigur á Dallas í nótt, 123-110, en þetta var tólfti sigur liðsins í röð. Stríðsmennirnir hafa nú unnið 12 leiki í röð og tróna á toppi Vesturdeildarinnar með 82,9% vinningshlutfall.

Sigurinn á Dallas var einnig merkilegur fyrir þær sakir að Kerr hefur nú náð besta árangri sem þjálfari á fyrsta ári í sögu NBA en Golden hefur unnið 63 leiki í vetur en aðeins tapað 13 og eru með besta árangurinn í allri NBA-deildinni.

Kerr fór þar með fram úr Paul Westphal og Tom Thibodeau en þeir unnu báðir 62 leiki á sínum fyrstu tímabilum sem þjálfarar í NBA.

Westphal stýrði Phoenix Suns til 62ja sigra tímabilið 1992-93 og undir stjórn Thibodeau vann Chicago Bulls 62 leiki tímabilið 2010-11.

Hvorugu liðinu tókst þó að vinna sjálfan NBA-titilinn en það er spurning hvort Kerr takist að landa þeim stóra í vor. Miðað við spilamennskuna á tímabilinu eru lærisveinar hans allavega líklegir til afreka í úrslitakeppninni.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×