Ráðstefna um strandminjar í hættu verður haldin á morgun í Kötlusal Hótel Sögu. Minjastofnun stendur fyrir ráðstefnunni. Tilefni hennar er ekkert gleðiefni en eins og fram hefur komið á Vísi er fjöldi minja um allt land í stórhættu vegna sjávarrofs. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, setur ráðstefnuna og heldur opnunarerindi hennar.
Í kjölfarið taka við fjölbreyttir fyrirlesarar sem koma til með að fjalla um málið frá öllum hliðum; þær minjar sem finna má við strendur landsins, hvernig staðan er núna og hvað er hægt að gera í málinu.
Eyþór Eðvarðsson átti frumkvæði að átakinu og segir stöðuna í þessum málum vera alveg skelfilega. „Það er menningarlegt stórslys að eiga sér stað við strendurnar þar sem þær minjar sem standa næst sjónum eru að hverfa á svakalegri ferð þessa dagana og þessi árin.“
Sjá einnig: Strandminjar á Íslandi: Menningarlegt stórslys að eiga sér stað
„Þær minjar sem ekki síst eru í hættu eru minjar um sjávarútveg og sjósókn Íslendinga frá landnámi og allt fram á 20. öld. Um er að ræða gríðarlegt magn ómetnalegra menningarverðmæta sem eru nær órannsökuð og munu að óbreyttu hverfa í sjóinn,“ segir í tilkynningu frá Minjastofnun.
Hér má nálgast frekari upplýsingar um ráðstefnuna en hún stendur á milli 13 og 16.30.
Sigmundur Davíð setur ráðstefnu um sjóminjar í hættu
Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
