Jae Crowder var hetja Boston Celtics þegar hann skoraði sigurkörfuna á móti Toronto Raptors þegar aðeins 0,8 sekúndur voru eftir á klukkunni. Boston vann leikinn þar með 95-93 og tryggði sér sjöunda sætið í Austrinu sem þýða leiki á móti Lebron James og félögum í Cleveland Cavaliers í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Boston Celtics liðið hefur unnið fimm leiki í röð þar af tvo þeirra á móti verðandi mótherjum í Cleveland Cavaliers. Evan Turner og Avery Bradley skoruðu báðir fjórtán stig fyrir Boston og Brandon Bass var með þrettán stig og níu fráköst. Kyle Lowry og Lou Williams skoruðu báðir 16 stig fyrir Toronto sem var öruggt með fjórða sætið og leiki við Washington Wizards í fyrstu umferð.
C.J. Miles skoraði 25 stig og George Hill bætti við 24 stigum þegar Indiana Pacers vann 99-95 sigur á Washington Wizards í tvíframlengdum leik. Félagarnir skoruðu öll stigin í 7-2 spretti í annarri framlengingunni sem lagði grunninn að sigrinum. Martin Gortat og Bradley Beal skoruðu báðir 19 stig fyrir Washington.
Indiana Pacers liðið hefur nú unnið sex leiki í röð og komast í úrslitakeppnina með sigri á Memphis í lokaleiknum eða að Brooklyn Nets tapi fyrir Orlando Magic á sama tíma.
Chris Paul skoraði 22 stig og sex þriggja stiga körfur þegar Los Angeles Clippers vann 112-101 sigur á meiðslahrjáðu liði Phoenix Suns. Blake Griffin var með 20 stig og DeAndre Jordan bætti við 13 stigum og 14 fráköstum og setti nýtt félagsmet í fráköstum á einu tímabili.
Clippers tryggði sér þar með þriðja sætið í úrslitakeppni Vesturdeildarinnar og á enn möguleika á öðru sætinu ef bæði San Antonio Spurs og Houston Rockets tapa lokaleiknum sínum.
Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:
Boston Celtics - Toronto Raptors 95-93
Indiana Pacers - Washington Wizards 99-95 Tvíframlengt
Phoenix Suns - Los Angeles Clippers 101-112
Staðan í NBA-deildinni