Körfubolti

Friðrik hneig niður í leik með Njarðvík

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir
Friðrik E. Stefánsson, fyrrum leikmaður Njarðvíkur til margra ára, hneig í kvöld niður í leik með B-liði félagsins.

Atvikið átti sér stað í leik gegn Haukum, í fyrsta leikhluta. Friðrik var fluttur með sjúkrabíl til Reykjavíkur en fram kom í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild Njarðvíkur í kvöld að hann sé nú á batavegi.

Friðrik varð þrívegis Íslandsmeistari með Njarðvík, síðast árið 2006. Friðrik, sem er úr Vestmannaeyjum, lék lengst af með Njarðvík á ferlinum en einnig KR, Þór Akureyri og KFÍ. Hann lagði skóna fyrst á hilluna árið 2011 en byrjaði svo aftur að spila með Njarðvík árið 2013 og fram á síðasta tímabil.

Árið 2007 fór Friðrik í hjartaaðgerð eftir að hafa fallið í yfirlið í nokkur skipti árin á undan, líkt og lesa má um hér.

„Tilkynning frá KKd. UMFN

Vegna atviks í leik UMFN B og Hauka B:

Eins og áhorfendur voru nú vitni að í kvöld að þá hneig leikmaður Njarðvíkur, Friðrik Stefánsson niður í miðjum fyrsta leikhluta liðanna.

Friðrik er nú kominn í góðar hendur lækna og sjúkraflutningamanna á leið til Reykjavíkur til frekari skoðunar.

Stjórn Kkd. UMFN vill koma á framfæri þökkum til allra aðila sem komu að aðhlynningu Friðriks þegar mest á reyndi. Hann er nú kominn til meðvitundar og á batavegi til allra lukku.

Sérstakar þakkir viljum við skila til Haukamannsins Gulla Briem en hann stjórnaði aðgerðum fyrir komu sjúkraflutningamanna og stóð sig eins og hetja. Áhorfendur, dómarar og andstæðingar eiga einnig þakkir skilið fyrir auðsýndan skilning á aðstæðum.

Fyrir fánann og UMFN.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×