Í sveitarstjórnarlögum frá 2011 er kveðið á um skyldu sveitarstjórna að setja sér siðareglur. Ákvæðið er nýmæli og sett í kjölfar umræðu um siðareglur kjörinna fulltrúa og mikilvægi þeirra. Í fréttinni segir að vitað sé um nokkur sveitarfélög í viðbót hvar undirbúningur að gerð siðareglna er á lokastigi.
„Siðareglur sem sveitarstjórn setur gilda fyrir fulltrúa í sveitarstjórn sem og nefndir og ráð sveitarstjórnar. Siðareglurnar þurfa staðfestingu innanríkisráðuneytisins og skulu þær birtar opinberlega á vefsíðu sveitarfélaga eða á annan sambærilegan hátt og eru þannig aðgengilegar öllum.
Siðareglur halda gildi sínu þar til annað er ákveðið af viðkomandi sveitarstjórn eða þeim sem síðar eru kjörnar. Á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga starfar siðanefnd og hefur hún gefið út leiðbeiningar til nýrra sveitarstjórna um gerð siðareglna og hlutverk siðanefndar.“
Í yfirliti ráðuneytisins segir að eftirfarandi sveitarfélög eigi enn eftir að setja sér siðareglur og senda til ráðuneytisins:
- Akrahreppur,
- Bolungarvíkurkaupstaður,
- Grímsnes- og Grafningshreppur,
- Hörgársveit,
- Ísafjarðarbær,
- Reykjanesbær,
- Skorradalshreppur,
- Strandabyggð,
- Stykkishólmsbær,
- Súðavíkurhreppur,
- Svalbarðshreppur,
- Svalbarðsstrandarhreppur,
- Sveitarfélagið Skagaströnd,
- Tjörneshreppur og
- Vestmannaeyjabær.