Körfubolti

Óvíst hvort strákarnir okkar mæti Dirk Nowitzki á EM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dirk Nowitzki myndi gleðja þýsku þjóðina með að mæta til leiks.
Dirk Nowitzki myndi gleðja þýsku þjóðina með að mæta til leiks. vísir/getty
Dirk Nowitzki, leikmaður Dallas Mavericks í NBA-körfuboltanum, hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hann spili með þýska landsliðinu á EM í haust.

Nowitzki, sem verður 37 ára í júní, lagði landsliðsskóna á hilluna fyrir fjórum árum eftir EM 2011, en þar sem Þýskaland spilar sinn riðil í Berlín er mikil pressa á Dirk að kveðja liðið endanlega á heimavelli.

Þýska liðið þarf líka svo sannarlega á kröftum hans að halda þar sem það er í algjörum dauðariðli með Serbíu, Ítalíu, Tyrklandi, Spáni og strákunum okkar í íslenska landsliðinu.

„Ég er ekki viss um hvað sumarið ber í skauti sér. Það er EM í september sem er einnig forkeppni fyrir Ólympíuleikana. Ég hef ekki ákveðið mig hvort ég spili þar eða ekki,“ sagði Nowitzki við blaðamenn á dögunum.

Þýska ofurstjarnan segist ætla að ákveða sig fyrir byrjun júní, en hann þurfi að ræða við konuna, foreldra sína, Marc Cuban, eiganda Dallas, og kannski þjálfara liðsins, Rick Carisle, áður en hann tekur endanlega ákvörðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×