Körfubolti

Tvítug framtíðastjarna danska körfuboltans fannst látinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rasmus Larsen.
Rasmus Larsen. Mynd/basquetmanresa.com
Rasmus Larsen, danskur atvinnukörfuboltamaður í Belgíu, fannst í látinn á heimili sínu í Belgíu í dag en farið var að undrast um hann eftir að hann lét ekki sjá sig á liðsfundi hjá Spirou Charleroi.

Þegar Rasmus Larsen lét ekki sjá sér á liðsfundinum fóru starfsmenn Spirou Charleroi heim til hans þar sem þeir komu að honum látnum. Það leit út fyrir að hann hafi látist í svefni en enginn veit fyrir víst  hver dánarorsökin er en talið er líklegast að hann hafi fengið hjartaáfall.

Fréttin um Rasmus Larsen á heimasíðu belgíska félagsins Spirou Charleroi og það er einnig hægt að finna upplýsingar um leikmanninn á síðunni.

Belgískir fjölmiðlar hafa heimildir fyrir því að Rasmus Larsen hafi fundið til óþæginda í öxlinni á æfingu liðsins kvöldið áður en liðið er í úrslitakeppninni þessa dagana.

Þetta er gríðarlegt áfall fyrir danskan körfubolta enda á ferðinni framtíðarstjarna danska landsliðsins sem var líklegur til að spila stórt hlutverk með landsliðinu næstu árin.

Rasmus Larsen var 212 sentímetrar á hæð og þótti einn besti leikmaður Evrópu í 1994-árganginum en hann hafði reynt fyrir sér á Spáni áður en hann samdi við belgíska félagið í október síðastliðnum.

Charleroi-liðið átti að mæta Ostend í kvöld í fyrsta leik liðanna í undanúrslitunum belgísku úrslitakeppninnar en leiknum hefur verið frestað þangað til á föstudaginn.

Rasmus Larsen lék með Hauki Helga Pálssyni hjá spænska úrvalsdeildarliðinu Manresa. Larsen var meðal annars með 21 stig og 13 fráköst í fyrstu umferð ACB-deildarinnar 2013-14 tímabilið þá aðeins átján ára gamall.

Hér fyrir neðan má sjá tvö myndbönd með Rasmus Larsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×