Fótbolti

Loksins skorað hjá Guðbjörgu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðbjörg þurfti að hirða boltann úr neti sínu í dag.
Guðbjörg þurfti að hirða boltann úr neti sínu í dag. vísir/valli
Guðbjörg Gunnarsdóttir fékk loks á sig mark í norsku úrvalsdeildinni þegar Lilleström tapaði 1-0 fyrir Roa á útivelli.

Synne Skinnes Hansen var sú fyrsta sem skorar framhjá Guðbjörgu en íslenski landsliðsmarkvörðurinn var búin að halda hreinu í fyrstu sex leikjum Lilleström í deildinni.

Þrátt fyrir tapið í dag er Lilleström enn í toppsæti deildarinnar með 18 stig, tveimur stigum á undan Klepp sem vann Medkila á heimavelli í dag með þremur mörkum gegn einu.

Katrín Ásbjörnsdóttir var í byrjunarliði Klepp en var tekin af velli á 81. mínútu. Jón Páll Pálmason er þjálfari liðsins.

Hólmfríður Magnúsdóttir lék allan leikinn fyrir Avaldsnes sem bar sigurorð af botnliði Sandviken á heimavelli, 3-1.

Þórunn Helga Jónsdóttir sat allan tímann á varamannabekknum.

Avaldnes er í 3. sæti deildarinnar með 13 stig en þetta var annar sigur liðsins í röð.

Þá lék Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir allan leikinn fyrir Stabæk sem tapaði 1-0 fyrir Vålerenga á útivelli. Stabæk er í 7. sæti deildarinnar með átta stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×