Fótbolti

Óvænt tap Rosenborg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hólmar og félagar voru aðeins búnir að fá á sig fimm mörk fyrir leikinn í kvöld.
Hólmar og félagar voru aðeins búnir að fá á sig fimm mörk fyrir leikinn í kvöld. vísir/getty
Rosenborg tapaði óvænt fyrir nýliðum Mjondalen á útivelli í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Hólmar Örn Eyjólfsson lék allan leikinn fyrir Rosenborg sem var með leikinn í hendi sér framan af. Eftir 22 mínútur var staðan 0-2 fyrir Rosenborg en nýliðarnir létu ekki slá sig út af laginu og jöfnuðu fyrir hálfleik.

Það var svo Bandaríkjamaðurinn Rhett Bernstein sem tryggði Mjondalen stigin þrjú með marki á lokamínútunni. Nýliðarnir hafa komið mjög á óvart og eru í 6. sæti deildarinnar með 12 stig eftir átta leiki.

Þrátt fyrir tapið er Rosenborg enn í toppsæti deildarinnar með 19 stig.

Þá vann Vålerenga 4-5 sigur á Tromsö í miklum markaleik. Elías Már Ómarsson sat allan tímann á varamannabekk Vålerenga en hann hefur aðeins komið við sögu í einum leik á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×