Warner, sem var áður varaforseti FIFA, er sjálfur einn sá allra spilltasti og er einn þeirra sem bandarísk dómsmálayfirvöld hafa kært fyrir mútuþægni.
Hann var með fimm mínútna ávarp á sjónvarpstöð í heimalandinu Trínídad og Tóbago í gærkvöldi þar sem hann sagðist óttast um eigi líf og hann hefði sagt lögfræðingum sínum að hafa samband við lögregluyfirvöld í heimalandi sínu og víðar.
Warner segist ætla leysa frá skjóðunni og segja frá öllu sem hann veit um spillinguna innan FIFA, en þessi fyrrverandi kennari er metinn á ríflega 100 milljónir dollara eftir setu sína í stjórn FIFA.
„Blatter veit af hverju hann féll. Það skiptir svo engu máli þó enginn annar viti það, því ég veit ástæðuna,“ sagði Warner.

Þá sagðist Warner einnig vera með skjöl sem tengja nokkra yfirmenn FIFA, þar á meðal Sepp Blatter, við vafasamar kosningar til þings í Trínídad og Tóbagó fyrir fimm árum síðan.
„Ég biðst afsökunar á að hafa ekki greint frá vitneskju minni um þetta fyrr. Ég get ekki snúið við á þeirri leið sem ég valdi mér,“ sagði Warner.
„Ég hef þagað í ótta um að þessi dagur myndi renna upp. Það geri ég ekki lengur. Ég mun ekki lengur varðveita leyndarmál þeirra sem reyna að eyðileggja landið mitt. Ég virkilega óttast um líf mitt,“ sagði Jack Warner.
Játning Warners kom aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Chuck Blazer, aðalvitni Bandaríkjamanna, játaði að hafa tekið við mútum í tengslum við val á staðsetningu HM í nokkur skipti.
Þetta eru vægast sagt ekki góðar fréttir fyrir Sepp Blatter, en Jack Warner hefur lengi verið einn af hans helstu bandamönnum.