Fótbolti

Ingvar vill finna sér nýtt félag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ingvar var valinn besti leikmaður Pepsi-deildar karla í fyrra.
Ingvar var valinn besti leikmaður Pepsi-deildar karla í fyrra. Vísir
Líkur eru á að Ingvar Jónsson verði lánaður frá norska liðinu Start á síðari hluta tímabilsins.

Í samtali við norska fjölmiðla segir hann að lið í sænsku úrvalsdeildinni sem og sænsku B-deildinni hafi áhuga á Ingvar. Það eina sem vaki fyrir honum er að fá að spila.

„Ég kom hingað til að spila og það hefur ekki gerst,“ sagði Ingvar sem hefur þess í stað spilað með varaliði Start í norsku þriðju deildinni.

„Ég vil spila í sterkari deild svo ég geti barist um sæti í landsliðinu,“ sagði Ingvar enn fremur en hann var ekki í valinn í leikmannahóp Íslands fyrir leikinn gegn Tékkum á föstudag.

Mons Ivar Mjelde, þjálfari Start, viðurkennir að félagið hefur ekki komið nógu vel fram við Ingvar sem hefur fengið tækifærið í einum leik í norsku deildinni. Þá tapaði Start fyrir Rosenborg, 3-0, í lok apríl.

„Það ætti að vera heilbrigð samkeppni á milli hans og Håkon Opdal en hann hefur staðið sig ótrúlega vel. Við þurfum að takast á við málið af alvöru. Ingvar þarf að spila í sterkari deild og þarf að spila meira,“ sagði Mjelde.

Ingvar segir að sér og fjölskyldu sinni líði vel Kristiansand en það eina neikvæða sé að hann fái ekki að spila. Hann trúi því þó enn að hann geti unnið sér sæti í íslenska landsliðinu.

„Auðvitað vil ég taka þátt í ævintýrinu. Það eru enn 2-3 mánuðir í næsta leik og ég vil vera með þá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×