Körfubolti

Svekkjandi hjá sænsku stelpunum á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Louice Halvarsson.
Louice Halvarsson. Vísir/EPA
Sænska kvennalandsliðið í körfubolta tókst ekki að komast í hóp þeirra tólf liða sem komust áfram í milliriðla á Evrópumóti kvenna sem fram fer þessa dagana í Rúmeníu og Ungverjalandi.

Sænsku stelpurnar unnu bara einn af fjórum leikjum sínum og sátu eftir ásamt heimastúlkum í liði Ungverjalands en þær sænsku voru grátlega nálægt sigri í öllum þremur tapleikjum sínum.

Sænska liðið tapaði nefnilega þessum þremur leikjum með samtals átta stigum en þær sænsku töpuðu með þremur stigum á móti Slóvakíu (69-72), með tveimur stigum á móti Litháen (68-70) og með fjórum stigum á móti ríkjandi Evrópumeisturum Spánverjar (60-64).

Frida Eldebrink var stigahæst í lokaleiknum á móti Spánverjum með tólf stig en hún skoraði einnig mest fyrir liðið á mótinu eða 18,0 stig að meðaltali í leik. Louice Halvarsson skoraði 11 stig í leiknum.

Sænska liðið vann níu stiga sigur á Ungverjum, 72-63, í öðrum leik sínum á mótinu en daginn áður hafði liðið misst niður sex stiga forskot á síðustu fjórum mínútum í fyrsta leik sínum á móti Slóvakíu.

Spánn, Litháen og Slóvakía komast áfram upp úr riðlinum og verða í öðrum milliriðlinum ásamt Króatía, Serbía og Rússland.

Í hinum milliriðlinum eru síðan Frakkland, Hvíta-Rússland, Svartfjallaland, Tyrkland, Tékkland og Grikkland.

Fjórar efstu þjóðirnar í hvorum riðli tryggja sér sæti í átta liða úrslitum keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×