Fótbolti

Jackson Martinez til Atletico Madrid

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jackson Martinez fagnar marki með Porto.
Jackson Martinez fagnar marki með Porto. vísir/getty
Jackson Martinez, framherji Porto, staðfesti eftir leik Kólumbíu og Argentínu í gær að hann væri á leiðinni til Atletico Madrid. Þetta staðfesti hann í viðtali eftir leikinn í gær.

„Ég get staðfest það að ég er á leiðinni til Atletico," sagði Martinez eftir að Kólumbía tapaði fyrir Argentínu í vítaspyrnukeppni í Suður-Ameríkukeppninni í gærkvöldi.

Atletico Madrid borgar tæpar 25 milljónir punda fyrir þennan magnaða framherja. Hann virtist vera á leiðinni til AC Milan, en það breyttist og er hann nú á leið til Spánar.

„Ég mun spila þar næstu fjögur árin, en ég veit ekki hvenær þetta verður gert opinbert. Þetta er klárt. Ég mun njóta smá tíma með fjölskyldu minni núna og síðan mun ég fara til Spánar þar sem ég verð kynntur hjá mínu nýja félagi."

Martinez er 28 ára og er frá Kólumbíu. Hann hefur verið frábær síðan hann gekk í raðir Porto í júlí 2012, en hann hefur skorað 67 mörk í 90 leikjum.

„Ég er mjög spenntur að taka þetta skref til Atletico Madrid. Þetta er ný áskorun á mínum ferli og ég vona að hlutirnir gangi vel fyrir mig þar," sagði Martinez að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×