Körfubolti

Serbnesku stelpurnar í úrslitaleikinn á EM eftir spennuleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. Vísir/AFP
Serbía spilar til úrslita um Evrópumeistaratitilinn í körfubolta kvenna eftir tveggja stiga sigur á Hvíta-Rússlandi, 74-72, í fyrri undanúrslitaleiknum á EM í Ungverjalandi.

Leikurinn var æsispenandi og úrslitin réðust ekki fyrr en í lokasókninni þegar Hvíta-Rússlandi mistókst að nýta síðustu sóknina í leiknum.

Ana Dabović, sem spilar með Ormanspor í Tyrklandi, var stigahæst í serbneska liðinu með 21 stig en eldri systir hennar og fyrirliði liðsins, Milica Dabović, skoraði 12 stig. Þær Sonja Petrović og Jelena Milovanović skoruðu báðar 14 stig.

Yelena Leuchanka, sem spilar með tyrkneska liðinu Yakin Dogu, var atkvæðamest hjá Hvít-Rússum með 22 stig, 11 fráköst og 4 stoðsendingar, Katsiaryna Snytsina skoraði 11 stig og hin "bandaríska" Lindsey Harding var með 10 stig og 6 stoðsendingar.

Hvít-Rússar voru með forystuna hluta leiksins, voru tveimur stigum yfir í hálfleik, 38-36, og náðu síðan sex stiga forskoti í upphafi seinni hálfleiksins. Serbneska liðið kom hinsvegar til baka og var sterkara á spennandi lokamínútum leiksins.  

Serbnesku stelpurnar unnu ekki sinn riðil í riðlakeppninni og voru fjórða liðið inn í átta liða úrslitin en engu að síður komnar alla leið í úrslitaleikinn.

Serbía mætir annaðhvort Spáni eða Frakklandi í úrslitaleiknum en liðin sem komust í úrslitaleikinn fyrir tveimur árum mætast í seinni undanúrslitaleiknum seinna í kvöld.

Serbía hefur aldrei spilað til úrslita á EM kvenna síðan Júgóslavía liðaðist í sundur en júgóslavneska kvennalandsliðið vann silfur á Evrópumótinu 1991.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×