„Á örfáum vikum hafa bankarnir þrír hirt upp af götunni og sporðrennt þremur af stærstu sparisjóðunum. Þetta byrjaði með Sparisjóð Vestmannaeyja, Afl var tekinn næst og nú um síðustu helgi Sparisjóður Norðurlands,“ sagði Össur.
Sjá einnig: Landsbankinn vinnur að samruna bankans og Sparisjóðs Norðurlands
„Það er með ólíkindum hvernig mynstrið er. Það sem einkennir þessa atburðarás er að um leið og það koma fjárfestar, ýmist með innlenda eða erlenda peninga og sjá viðskiptatækifæri í sparisjóðunum þá koma stóru bankarnir og gleypa þá.“ Össur spurði hvar Samkeppniseftirlitið og Fjármálaeftirlitið væru staðsett í ferlinu.
Samrunarnir sem um ræða eru samruni Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja, Afls sparisjóðs við Arion banka og Landsbankans og Sparisjóðs Norðurlands.
Bankarnir ryðja burt mögulegum keppinautum
„Bankarnir fá þá ókeypis eins og hefur komið fram í svari hæstvirts fjármálaráðherra við fyrirspurn minni varðandi Landsbankann og Sparisjóð Vestmannaeyja. Landsbankinn fær greitt með honum hundruði milljóna í formi yfirfæranlegs skattalegs taps.“
Fyrirspurn Össurar og svar Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, má sjá hér. Fyrirspurn Össurar hvað varðar Afl sparisjóð er enn ósvarað.

Sjá einnig: Samkeppniseftirlitið heimilar sameiningu Arion banka og AFLs
Össur telur að efnhags- og skattnefnd þingsins þurfi að rannsaka hvernig málið er vaxið, ef ekki sú nefnd þá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. „Hér er ekki góður ilmur af því hvernig bankarnir hafa hagað sér.“
Ragnheiður Ríkharðsdóttir tók undir orð Össurar og sagði hún bankana ásælast sparisjóðina. Hún gagnrýndi hvernig ferlið virðist ganga án þess að Fjármálaeftirlitið né Samkeppniseftirlitið sinni lögbundnu hlutverki sínu.
Segir allt stefna í sama einsleita bankakerfið og 2007
„Fjármálaeftirlitið lýsir því yfir að það samþykki og sjái ekki ástæðu til annars. Það er hins vegar að sjálfsögðu í þessu ferli verið að rýra samkeppni á fjármálamarkaði. Það er verið að beina öllum að hinum stóru bönkunum, þessum þremur plús að nú varð til enn einn samruninn, MP banka og Straums.“
Hún telur einnig að þetta kalli á skoðun. „Það hlýtur að vera okkur öllum áhyggjuefni að fá álíka einsleitt bankakerfi og hér var í aðdraganda hruns,“ sagði Ragnheiður. „Það kallar á að fjármálaeftirlitið fari verulega ofan í saumana á þessari yfirtöku, því ekki er um samruna að ræða, og skoði nákvæmlega í hverju hún er fólgin. Og af hvejru ekki var hægt að verða við óskum erlendra fjárfesta sem vildu taka yfir.“
Ragnheiður sagði það hljóta að klingja einhverjum bjöllum fyrir þá sem voru þingmenn þegar efnahagshrunið varð í hvaða átt bankakerfið stefnir. „Virðulegi forseti, með fullri virðingu, það setur að mér hroll.“