Tvær franskar konur sitja nú í gæsluvarðhaldi eftir að hafa reynt að smygla rúmlega fjögur hundruð grömmum af kókaíni til landsins. Þær komu með flugi frá London í lok maí en rannsókn máls er nú á lokastigi.
Önnur konan reyndist hafa hluta efnanna innvortis en hin hafði komið þeim fyrir utan á líkama sínum. Þær eru báðar á tvítugsaldri, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Í apríl voru hollenskar mæðgur handteknar eftir að hafa gert tilraun til að smygla tæplega tuttugu kílóum af fíkniefnum til landsins. Í þeirra tilfelli var um að ræða amfetamín, kókaín og MDMA sem fundust í ferðatöskum þeirra.
