Körfubolti

Helenu varð að ósk sinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Helena í leik á Smáþjóðaleikunum.
Helena í leik á Smáþjóðaleikunum. vísir/stefán
Á laugardaginn var dregið í riðla fyrir undankeppni Evrópumóts kvenna í körfubolta 2017 sem fer fram í Tékklandi. Íslenska liðið var í neðsta styrkleikaflokki og dróst í riðil með Slóvakíu, Ungverjalandi og Portúgal.

Landsliðsfyrirliðanum Helenu Sverrisdóttur varð því að ósk sinni en hún vonaðist eftir því að fá Slóvakíu og Ungverjaland: „Þetta var ekki leiðinlegt enda hef ég spilað í báðum þessum löndum,“ sagði Helena í samtali við Fréttablaðið í gær. Hún þekkir vel til þessara landsliða.

„Ég spilaði með nánast öllum í slóvakíska liðinu og báðir þjálfarar þess þjálfuðu mig þannig að ég þekki þær mjög vel. Og svo á ég tvær mjög góðar vinkonur í ungverska liðinu sem ég spilaði reyndar með í Slóvakíu,“ bætti Helena við en hún lék með Good Angels Kosice í Slóvakíu og Mickolc í Ungverjalandi.

Helena segir íslenska liðið geta verið nokkuð sátt við dráttinn: „Þetta hefði klárlega getað verið verra og þetta er mjög fínn dráttur. Þessi lið eru ekki með risastórar stelpur, kannski eina og eina, svo þær ættu ekki að hafa algjöra yfirburði gegn okkur í teignum. En við vitum að þetta verður alltaf erfitt, sérstaklega þar sem við missum þrjá sterka leikmenn úr liðinu okkar.“

Þessir þrír leikmenn sem um ræðir eru Margrét Rósa Hálfdanardóttir, Sara Rún Hinriksdóttir og Hildur Björg Kjartansdóttir sem leika allar í háskólaboltanum í Bandaríkjunum. Leikir Íslands í riðlinum eru allir á meðan keppnistímabilið vestanhafs stendur yfir og því er ólíklegt að leikmennirnir fáist lausir í landsleikina.

Ísland leikur sex leiki í undankeppninni; tvisvar við hvert lið, heima og að heiman. Fyrstu tveir leikirnir fara fram 21. og 25. nóvember en þá mætir Ísland Ungverjalandi á útivelli og Slóvakíu á heimavelli.

Efsta liðið úr hverjum riðli (sem eru níu talsins) í undankeppninni kemst í lokakeppnina í Tékklandi, auk þeirra sex liða sem eru með bestan árangur í öðru sæti riðlanna.

Helena segir að íslenska liðið sé með raunhæfar væntingar fyrir undankeppnina: „Það er langt síðan við tókum þátt síðast og við verðum ekki alveg með okkar sterkasta lið þannig að þetta verður erfitt. Við ættum að eiga séns í Portúgal og svo verðum við bara að sjá hvað við getum gert á móti þessum stærri þjóðum.“

Íslenska liðið heldur út til Danmerkur á morgun þar sem það tekur þátt í æfingamóti. Ísland spilar þrjá leiki, tvo gegn Danmörku og einn gegn Finnlandi. Helena segir gott að fá þessa æfingaleiki svona skömmu eftir Smáþjóðaleikana þar sem íslensku stelpurnar fengu silfurverðlaun eftir tap fyrir Lúxemborg í úrslitaleik.

„Það verður gott að fá svona stóra leiki á móti góðum þjóðum, það er partur af undirbúningnum fyrir undankeppni EM,“ sagði Helena að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×