Körfubolti

Lopez-tvíburarnir spila með New York liðunum næsta vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robin Lopez er hér til vinstri en Brook Lopez er til hægri.
Robin Lopez er hér til vinstri en Brook Lopez er til hægri. Vísir/EPA
Miðherjinn Robin Lopez ætlar yfirgefa Portland Trail Blazers og semja við New York Knicks til fjögurra ára samkvæmt fréttum bandarískra fjölmiðla í kvöld.

Robin Lopez var með lausan samning hjá Portland Trail Blazers þar sem hann hefur spilað undanfarin tvö tímabil.

Robin Lopez fær 54 milljónir dollara, 7,2 milljarða íslenskra króna, fyrir að loka miðjunni hjá New York Knicks liðinu til 2019.

Tvíburabróðir Robin Lopez, Brook Lopez hefur framlengt samning sinn við nágranna Knicks í Brooklyn Nets þar sem hann hefur spilað allan sinn feril. Brook Lopez fær 60 milljónir dollara fyrir þrjá ár hjá Brooklyn Nets.

Lopez-tvíburarnir spila því með nágrannaliðum New York borgar næstu tímabil en þeir hafa ekki spilað saman síðan að þeir voru báðir í      Stanford-háskólanum frá 2006 til 2008.

Phil Jackson, forseti New York Knicks, náði ekki að heilla LaMarcus Aldridge, Greg Monroe eða DeAndre Jordan sem voru allir mun eftirsóttari en umræddur Robin Lopez.

Robin Lopez er 27 ára gamall og 213 sentímetrar á hæð en hann þykir mjög góður varnarmaður en lætur minna til sína taka í sókninni.

Robin Lopez var með 9,6 stig, 6,7 fráköst og 1,4 varin skot að meðaltali með Portland Trail Blazers á síðustu leiktíð.

Auk þess að spila með Portland Trail Blazers hefur Robin Lopez spilað með Phoenix Suns og New Orleans Hornets.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×