Körfubolti

Wade gerði bara eins árs samning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwyane Wade og Chris Bosh spila áfram saman á næsta tímabili.
Dwyane Wade og Chris Bosh spila áfram saman á næsta tímabili. Vísir/Getty
Dwyane Wade verður áfram með Miami Heat í NBA-deildinni í körfubolta á næsta tímabili en hann hefur þó ákveðið að gera bara eins árs samning að þessu sinni.

Nýr samningur Dwyane Wade og Miami Heat mun gefa Wade um 20 milljónir dollara í aðra hönd eða meira en 2,6 milljarða í íslenskum krónum.

Bandarískir fjölmiðlar voru duglegir að orða Wade við lið eins og Cleveland Cavaliers og Los Angeles Lakers og forráðamenn Miami Heat ætluðu að passa sig á því að missa ekki Wade eins og LeBron James fyrir ári síðan.

Wade verður því aftur með lausan samning næsta sumar og reynir þá eflaust að gera einn lokasamning við Miami Heat. Heat mun þar reyna að fá stjörnuleikmenn eins og Kevin Durant til að semja við félagið.

Dwyane Wade er 33 ára gamall og hefur spilað með Miami Heat frá 2003. Hann varð NBA-meistari með liðinu 2006, 2012 og 2013.

Wade var með 21,5 stig, 4,8 stoðsendingar og 3,5 fráköst að meðaltali í þeim 62 leikjum sem hann spilaði með Miami Heat á síðasta tímabili.

Heat-liðið komst ekki í úrslitakeppnina en það hafði bara einu sinni gerst á tólf ára ferli Wade með Miami-liðinu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×