Opna breska meistaramótið hófst í morgun en ástralski kylfingurinn Rod Pampling tók fyrsta höggið.
Aðstæður á St. Andrews eru með besta móti, völlurinn óvenjulega grænn, lítill vindur og þurrt.
Það gæti þó rignt seinna í dag og á morgun og því gætu þeir kylfingar sem eru með rástíma snemma fengið forskot á þá sem fara út seinna í dag.
Einn af þeim sem nýtti góðu aðstæðurnar vel í morgun var Svíinn David Lingmerth en hann fór á kostum á fyrri níu holunum, fékk sjö fugla og tvö pör og er með þriggja högga forystu þegar að þetta er skrifað.
Jordan Spieth hóf leik nú rétt í þessu en hann freistar þess að sigra á sínu þriðja risamóti á árinu.
Hann hefur fengið tvo fugla á fyrstu tveimur holunum og fer mjög vel af stað.
Tiger Woods hóf svo leik klukkan níu og fékk skolla á fyrstu holuna en bein útsending er hafin á Golfstöðinni.
Opna breska hafið - Spieth fer vel af stað
