Fótbolti

Pútín: Blatter á skilið Nóbelsverðlaun

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Sáttir saman félagarnir.
Sáttir saman félagarnir. Vísir/Getty
Forseti Rússlands, Vladimir Pútín, segir að hinn mjög svo umdeildi forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, Sepp Blatter, eigi skilið Nóbelsverðlaun fyrir störf sín í þágu knattspyrnuhreyfingarinnar.

Blatter hefur samkvæmt miðlum erlendis undanfarin ár sóst eftir friðarverðlaunum Nóbels og var átak knattspyrnusambandsins sem kallað var Friðarhandarbandið hluti af því.

Nóbelsverðlaunanefndin hætti hinsvegar öllum afskiptum af knattspyrnusambandinu eftir að sjö háttsettir starfsmenn FIFA voru handteknir vegna gruns um spillingu og mútuþægni innan sambandsins. Leiddu handtökurnar til þess að Blatter ákvað að segja af sér sem forseti sambandsins stuttu eftir að hafa verið kosinn forseti sambandsins í fimmta sinn.

Verður kosið um nýjan forseta knattspyrnusambandsins þann 26. febrúar næstkomandi en Blatter virðist ekki vera búinn að gefa upp von að hann verði endurkjörinn og haldi áfram sem forseti sambandsins í stól sem hann hefur setið undanfarin sautján ár.

Meðal þess sem þótti hvað umdeildast í stjórnartíð Blatters var ákvörðun framkvæmdarnefndar sambandsins um að úthluta Rússlandi Heimsmeistaramótinu árið 2018 og mið-austurlenska olíuveldinu Katar Heimsmeistaramótinu 2022. Hafa breskir miðlar sannað að meðlimir framkvæmdarráðsins hafi boðið atkvæði sín til sölu en þrátt fyrir það hefur Blatter sagt að ákvörðuninni verði ekki haggað.

Pútín var í viðtali við svissneska miðilinn RTS í tilefni þess að dregið var í riðla í undankeppni Heimsmeistaramótsins 2018 í Rússlandi um helgina og kom hann vini sínum til varnar.

„Forystumenn íþróttahreyfinga út um allan heim eins og herra Blatter, eiga að mínu mati skilið sérstakar viðurkenningar fyrir störf sín í þágu íþróttana. Ef einhver á skilið að fá Nóbelsverðlaunin, þá er það þetta fólk. Þótt við höfum öll lesið um spillinguna innan knattspyrnusambandsins þá er ég viss um að hann sjálfur átti engan þátt í þessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×