Tyrkneskar orrustuþotur gerðu í nótt loftárás á stöðvar ISIS-liða í Sýrlandi og bækistöðvar Kúrda í norðurhluta Íraks. Með þessu vilja Tyrkir hefna fyrir sprengjuárás á menningarmiðstöð í bænum Suruc í Tyrklandi þar sem þrjátíu og tveir létu lífið.
Talið er að ISIS-liðar hafi staðið á bak við sprengjuárásina á Suruc á mánudag en árásin hefur vakið upp mikla reiði í Tyrklandi. Tyrkneska lögreglan handtók í gær mörg hundruð einstaklinga sem eru grunaðir um að vera hliðhollir ISIS-samtökunum.
Þá hafa tyrknesk stjórnvöld boðið Bandaríkjamönnum að nota herflugvelli í landinu til að gera árás á stöðvar ISIS í Sýrlandi. Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, útilokaði ekki í yfirlýsingu í gær að senda hersveitir inn í Sýrland til að tryggja öryggi á svæðinu.
Loftárásirnar í nótt beindust þó ekki eingöngu að ISIS heldur einnig bækistöðvum Kúrda í norðurhluta Íraks en með því rufu Tyrkir vopnahlé sem hefur verið í gildi milli þeirra og Kúrda frá árinu 2013. Kúrdar hafa hingað til unnið með Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra í baráttunni gegn ISIS samtökunum en ekki liggur fyrir hvort árásirnar í nótt muni hafa áhrif á það samstarf.
Tyrkir hefna fyrir sprengjuárásina með loftárásum gegn ISIS

Tengdar fréttir

Fjöldaútför í Suruc fyrir fórnarlömb sprengjuárásar
32 létu lífið í árásinni í tyrkneska landamærabænum í gær, flestir háskólanemar.

Sprengjumaðurinn í Suruc var tvítugur tyrkneskur námsmaður
Árásarmaðurinn hét Seyh Abdurrahman Alagoz og var tyrkneskur Kúrdi frá héraðinu Adiyaman.

Mannskæð sprenging í bænum Suruc í Tyrklandi
Sjálfsmorðsárásarmaður felldi að minnsta kosti 28 manns í árás á tyrkneska bæinn Suruc sem stendur nærri landamærum Tyrklands og Sýrlands.