Kristín Lárusdóttir kom sá og sigraði nokkuð óvænt í töltkeppninni á HM íslenska hestsins í Herning. Þar með skaut hún margföldum Íslands- og heimsmeisturum ref fyrir rass.
Kristín reið á hestinum Þokka frá Efstu-Grund en hann hefur hún verið með síðustu átta ár. Kristín er sjálf sauðfjárbóndi á Syðri-Fljótum við Kirkjubæjarklaustur.
Sigurinn var nokkuð öruggur en Kristín og Þokki hlutu einkunnina 8,44. Norðmaðurinn Nils Larsen kom næstur á Viktori frá Diisa og á hæla hans fylgdi Finninn Katie Brumpton á Smára frá Askgården. Þau hlutu 7,94 og 7,89 í einkunn.
Jóhann Skúlason, fráfarandi heimsmeistari, var efstur eftir forkeppnina með Garp frá Hojgaarden. Jóhann endaði fjórði með 7,83. Sömu einkunn hlaut Sigurbjörn Bárðarson á Jarli frá Mið-Fossum.
Viðtal við nýkrýndan heimsmeistara má sjá hér að ofan.
Kristín og Þokki óvæntir heimsmeistarar í tölti
Tengdar fréttir

Teitur heimsmeistari í gæðingaskeiði
Hann þakkar sigurinn hestinum.

Íslenskt silfur í slaktaumatölti
Heimsmeistaramóti íslenska hestsins lýkur í dag.