Körfubolti

Músin Ragnar og stemning Stólanna

Sindri Sverrisson skrifar
Ragnar Ágústsson átti frábæran leik gegn ÍR-ingum.
Ragnar Ágústsson átti frábæran leik gegn ÍR-ingum. Vísir/Anton Brink

Þó að Tindastóll hafi tapað Evrópuleik sínum í Tékklandi í gærkvöld þá hefur tímabilið að öðru leyti gengið eins og í sögu og stemningin virst mikil. Um þetta ræddu menn í Bónus Körfuboltakvöldi á föstudaginn.

Stólarnir eru á toppi Bónus-deildarinnar eftir þrjá sigra en þeir keyrðu yfir ÍR-inga í Breiðholtinu síðasta föstudag, og unnu 113-67.

Ragnar Ágústsson átti þar frábæran leik og skoraði tuttugu stig, með áttatíu prósent skotnýtingu, en umræðuna um hann og stemninguna hjá Stólunum má sjá hér að neðan.

Klippa: Körfuboltakvöld - Músin Ragnar og stemning Stólanna

„Það fer rosalega mikið fyrir Ragnari inni á vellinum. Það taka allir eftir því þegar hann er að hreyfa sig. En þetta er músin sem læðist. Þetta er ekki gæinn sem er að fara í áhorfendur og hvetja alla áfram. Hann bara spilar á fullu, alltaf í botni, og gerir ótrúlega marga grunnhluti ótrúlega vel. Það er gaman að hann skuli vera að fá tækifæri hjá nýjum þjálfara,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson í Körfuboltakvöldi.

Stólarnir hafa í nógu að snúast því á milli leikja í Bónus-deildinni eru þeir að spila í Norður-Evrópukeppninni, þar sem þeir unnu fyrstu tvo leiki sína en töpuðu svo gegn Opava í Tékklandi í gær. Teitur Örlygsson er sannfærður um að þátttakan í keppninni geri mikið fyrir Stólana:

„Þegar að mitt lið fór í svona keppnis- eða æfingaferðir fyrir tímabilið þá fannst mér þetta alltaf gera liðinu ofboðslega gott. Samveran límir einhvern veginn hópinn saman. Nýju leikmennirnir opna sig og kynnast. 

Mér finnst ég sjá þetta á Tindastólsliðinu innan vallar. Það er ofboðslega gaman hjá þeim og ég hef oft sagt að ég dauðöfunda þá að vera að taka þátt í svona keppni, og þurfa ekki að vera að mæta á æfingar klukkan sjö á kvöldin í myrkrinu. Vera bara úti í heimi að spila körfubolta,“ sagði Teitur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×