Fótbolti

Rosenborg með sjö stiga forskot á toppnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hólmar hefur leikið alla deildarleiki Rosenborg á tímabilinu nema einn.
Hólmar hefur leikið alla deildarleiki Rosenborg á tímabilinu nema einn. vísir/getty
Rosenborg vann sinn þriðja leik í röð þegar liðið vann Sarpsborg, 3-2, í síðasta leik dagsins í norsku úrvalsdeildinni.

Rosenborg er á toppi deildarinnar með 42 stig, sjö stigum meira en Stabæk sem er í 2. sæti.

Toppliðið lenti í kröppum dansi í dag en Sarpsborg var 0-1 yfir í hálfleik. Fredrik Midtsjö jafnaði metin á 51. mínútu og átta mínútum síðar kom Pål André Helland Rosenborg yfir.

Leikmenn Sarpsborg gáfust ekki upp og Steffen Ernemann jafnaði leikinn á 65. mínútu. En það var Alexander Söderlund, fyrrverandi leikmaður FH, sem tryggði Rosenborg sigurinn með sínu 16. deildarmarki þegar sex mínútur voru eftir af leiknum. Söderlund er markahæstur í norsku deildinni á þessu tímabili.

Hólmar Örn Eyjólfsson kom inn á sem varamaður í hálfleik hjá Rosenborg en Matthías Vilhjálmsson sat allan tímann á varamannabekknum.

Í B-deildinni hélt Ingvar Jónsson marki sínu hreinu þegar Sandnes Ulf og Jerv gerðu markalaust jafntefli.

Þetta var annar leikur Ingvars fyrir Sandnes Ulf en hann var lánaður til liðsins frá Start út tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×