Fótbolti

Guðbjörg og stöllur hennar óstöðvandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðbjörg hefur aðeins fengið á sig fjögur mörk í norsku deildinni.
Guðbjörg hefur aðeins fengið á sig fjögur mörk í norsku deildinni. vísir/valli
Sex leikir fóru fram í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Sigurganga Lilleström heldur áfram en liðið vann sinn fjórða leik í röð þegar það bar 1-3 sigurorð af Kolbotn á útivelli.

Guðbjörg Gunnarsdóttir stóð í marki Lilleström en landsliðsmarkvörðurinn hefur leikið alla leiki liðsins í deildinni á þessu tímabili. Markið sem Kolbotn skoraði í leiknum í dag er aðeins fjórða markið sem Guðbjörg fær á sig í sumar.

Lilleström er með 30 stig á toppi deildarinnar, átta stigum á undan Avaldsnes sem vann 0-1 sigur á Vålerenga í dag.

Hólmfríður Magnúsdóttir lék allan leikinn fyrir Avaldsnes en Þórunn Helga Jónsdóttir kom ekkert við sögu.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir lék allan leikinn fyrir Stabæk sem vann 2-3 sigur á Amazon Grimstad, næstneðsta liði deildarinnar. Stabæk er í 7. sæti með 12 stig en liðið á tvo leiki inni á flest lið deildarinnar.

Katrín Ásbjörnsdóttir lék ekki með Klepp sem steinlá, 4-1, fyrir Röa Fotball Elite á útivelli.

Norska landsliðskonan María Þórisdóttir Hergeirssonar, þjálfara norska kvennalandsliðsins í handbolta, lék allan leikinn fyrir Klepp sem er í 4. sæti deildarinnar með 19 stig. Jón Páll Pálmason er þjálfari liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×