Stjarnan er komin í 32 liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir þrjá sigra og ellefu mörk í þremur leikjum í sínum riðli í forkeppninni á Kýpur.
Stjörnukonur spiluðu þessa þrjá leiki á aðeins sex dögum, frá þriðjudegi til sunnudags og framundan er síðan risaleikur við Breiðablik á föstudaginn þar sem Stjarnan verður að vinna ætli þær sér að vinna Íslandsmeistaratitilinn þriðja árið í röð.
Stjörnukonur ætla samt ekki að flýta sér heim til Íslands þótt að aðeins nokkrir dagar séu í óopinberan úrslitaleik Íslandsmótsins í ár og þær munu hefja undirbúning sinn fyrir Blikaleikinn á Kýpur.
„Við leggjum af stað á þriðjudagsmorgun. Það munaði tvö hundruð þúsund karli á hvern miða á dögum," segir Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar við Vísi í kvöld, um ástæður þess að Stjörnuliðið eyði degi lengur á Kýpur.
„Við tökum því endurheimt í sjónum á morgun og náum þreytunni úr okkur,"segir Ásgerður sem kann vel við sig út á Kýpur. „Við gömlu í liðinu höfum aldrei verið eins ferskar og hérna út og hitinn er að fara vel í okkur. Það er því fínt að taka endurheimt hérna úti og svo er bara risaleikur á föstudaginn," segir Ásgerður.
„Þetta var eitt af markmiðunum sem við settum okkur fyrir tímabilið. Það er frábært að ná því. Það er mikil leikjatörn í gangi og ég held að lengsta fríið á milli leikja að undanförnu sé fjórir dagar. Okkur líður því eins og við séum að fá langt frí á milli leikja," segir Ásgerður í léttum tón.
Stjörnukonur koma ekki strax heim | Endurheimt í sjónum á morgun
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið




„Að lokum var það betra liðið sem vann“
Körfubolti



Tatum með slitna hásin
Körfubolti

Einn besti leikmaður KR frá næsta mánuðinn hið minnsta
Íslenski boltinn


Man City sagt hafa lagt fram „mega“ tilboð í Wirtz
Enski boltinn
Fleiri fréttir

Þeir bestu (50.-41. sæti): Skagamiðverðir, markahrókar úr Eyjum og Laugardalnum og öldungurinn aftast
