Fótbolti

Hólmfríður skoraði fjögur mörk þegar Avaldsnes komst í undanúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir.
Hólmfríður Magnúsdóttir. Vísir/EPA
Hólmfríður Magnúsdóttir var heldur betur á skotskónum í kvöld þegar Avaldsnes tryggði sér sæti í undanúrslitum norsku bikarkeppninnar. Tvö Íslendingalið verða í undanúrslitunum því Lilleström-liðið vann einnig sinn leik í átta liða úrslitunum.

Avaldsnes vann 5-1 sigur á Röa á heimavelli sínum og er komið í undanúrslit norsku bikarkeppninnar ásamt Lilleström og Stabæk. Leik Kolbotn og Trondheims-Örn er ekki lokið.

Hólmfríður hefur lagt það í vana sinn að fara á kostum í bikarleikjum og í kvöld skoraði hún fjögur af sex mörkum síns liðs.  

Hólmfríður skoraði fyrsta mark leiksins á 18. mínútu eftir sendingu frá hinni brasilísku Rosönu og bætti síðan við öðru mark á 30. mínútu með skoti í slána og inn eftir sendingu frá norsku landsliðskonunnar Elise Thorsnes.

Luana kom Avaldsnes í 3-0 á 37. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.

Hólmfríður innsiglaði þrennuna á 47. mínútu eftir að hafa sloppið ein í gegn eftir sendingu Cecilie Pedersen. Megan Lindsay minnkaði muninn fyrir Röa á 62. mínútu.

Hólmfríður var þó ekki hætt og skoraði sitt fjórða mark í leiknum mínútu fyrir leikslok. Þetta mark lá í loftinu hjá íslensku landsliðskonunni því hún var ógnandi allan hálfleikinn.

Hólmfríður Magnúsdóttir hefur skorað í öllum þremur bikarleikjum Avaldsnes, samtals sex bikarmörk,  en Avaldsnes-liðið hefur þegar skora sextán bikarmörk á tímabilinu.

Gudbjörg Gunnarsdóttir var í marki Lilleström sem vann 2-1 sigur á Sandviken á heimavelli. Lilleström er á toppi deildarinnar og getur varið báða titla sína síðan í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×