Körfubolti

KR segir sig úr keppni í Dominos-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björg Guðrún Einarsdóttir var fulltrúi KR í A-landsliði kvenna í sumar en hún ætlaði ekki að spila áfram í Vesturbænum.
Björg Guðrún Einarsdóttir var fulltrúi KR í A-landsliði kvenna í sumar en hún ætlaði ekki að spila áfram í Vesturbænum. Vísir/Vilhelm
Kvennalið KR verður ekki með í Dominos-deild kvenna á komandi vetri en stjórn körfuknattleiksdeildar KR ákvað í kvöld að segja sig úr keppni.

Bergþóra Holton Tómasdóttir var með samning við KR-liðið en hún mun ekki spila með liðinu í 1. deildinni og leyfir KR henni að finna sér annað lið í Dominos-deildinni.

KR-liðið hefur misst marga lykilmenn í sumar og það mat stjórnarinnar að þær ungu stelpur sem skipa nú meistaraflokk kvenna eigi frekar erindi í 1. deildina en í Dominos-deildina.

Í fréttatilkynningu sem KR sendi frá sér í kvöld kemur fram að metnaður KR sé að skipa öflugt lið í báðum meistaraflokkum félagsins og að hvergi verði slakað á í umgjörð kvennaliðsins.



Fréttatilkynning frá körfuknattleiksdeild KR

Eftir að hafa metið stöðu meistaraflokks kvenna hjá KR hefur stjórn deildarinnar ákveðið að það sé langtíma hagsmunum liðsins og félagsins fyrir bestu að KR segi sig úr keppni í Dominosdeild kvenna og taki þátt í 1. deild kvenna á komandi tímabili.  

Sannarlega ekki sú staða sem lagt var upp með eftir síðasta tímabil en eftir það sem á undan hefur gengið í leikmannamálum í sumar er það raunsætt mat að sá efnilegi en jafnframt ungi hópur sem telur meistaraflokk kvenna eigi frekar erindi í 1. deild.

Metnaður KR er að skipa öflugt lið í báðum meistaraflokkum félagsins og hvergi verður slakað á í umgjörð kvennaliðsins. Markmiðið er nú að byggja upp þá ungu leikmenn sem munu koma úr yngri flokka starfinu, byggja upp öfluga leikmenn sem munu innan fárra ára koma KR aftur í fremstu röð í kvennaboltanum.

Leikmönnum og þjálfara var tilkynnt þessi niðurstaða og þessi framtíðarsýn á fundi með stjórn í kvöld. Björn Einarsson var ráðinn þjálfari liðsins síðastliðið vor og hefur hann skiljanlega fengið frest til að ákveða hvort hann fylgji liðinu í 1. deild.  

Þá er ljóst að landsliðskonan Bergþóra Holton mun ekki leika með KR í 1. deild og virðir stjórn kkd KR ákvörðun hennar og óskar henni alls hins besta í framtíðinni.  Það er von stjórnar að aðrir leikmenn taki slaginn, með þeim ungu leikmönnum sem fyrir eru.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×