Dómstóll í suðausturhluta Tyrklands hefur úrskurðað tvo breska fréttamenn sem starfa fyrir bandarísku stöðina Vice News og írakskan aðstoðarmann þeirra í gæsluvarðhald.
Mennirnir, Jake Hanrahan og Philip Pendlebury, eru grunaðir um að hafa stutt við starfsemi hryðjuverkasamtakanna ISIS en í frétt BBC segir engin ákæra hafi enn verið lögð fram. Fjórða manninum, bílstjóra mannanna, hefur verið sleppt.
Mennirnir voru handteknir í síðustu viku og hefur lögregla lagt hald á myndefni sem var í þeirra fórum. Þá segir að upphaflega hafi þeir verið sakaðir um að hafa myndað án heimildar yfirvalda, en síðar að hafa stutt við bakið á ISIS.
Mennirnir neita því sem þeim er gefið að sök.
Breskir fréttamenn úrskurðaðir í gæsluvarðhald í Tyrklandi
Atli Ísleifsson skrifar
